Fréttir

Trúnaðarmannanám á vorönn 2021

10 feb. 2021

Trúnaðarmenn gegna mikilvægu hlutverki á sínum vinnustað, bæði gagnvart starfsmönnum og atvinnurekanda en einnig gagnvart viðkomandi stéttarfélagi. Þeir eru kosnir af félagsmönnum á vinnustað og eru tengiliður milli félagsmanna á vinnustaðnum og atvinnurekanda annars vegar og milli félagsmanns og stéttarfélagsins hins vegar. Starf trúnaðarmanna til þess fallið að auka skilning samstarfsmanna á réttindum þeirra og skyldum, en einnig skapar starf þeirra tækifæri til að bæta andrúmsloft og auka vellíðan starfsmanna, sem kemur öllum vinnustaðnum til góða.

Þrjú vefnámskeið trúnaðarmannanámskeið BSRB og Félagsmálaskóla alþýðu verða haldin á Zoom á vorönn skólans. Tilgangur námsins er að auðvelda trúnaðarmönnum að takast á við verkefni sem þeim eru falin, að þeir efli sjálfstraust sitt og lífsleikni auk þess að námið stuðli að jákvæðu viðhorfi til áframhaldandi náms. Í Handbók trúnaðarmannsins er fjallað um hlutverk, réttindi og skyldur trúnaðarmanna, en þeim ber að gæta þess að kjarasamningar séu haldnir af atvinnurekanda og ekki sé gengið á félagslegan- og borgaralegan rétt starfsmanna. Skráning fer fram hér á vef Félagsmálaskóla alþýðu. 

TRÚNAÐARMANNANÁM 2. HLUTI
Vefnámskeið. Lögð er megináhersla á mikilvægi góðra samskipta á vinnustað og hvernig megi stuðla að góðum samskiptum. Skoðuð er mismunandi framkoma, áhrif hennar á okkur og aðra. Nemendur kynnast afleiðingum langvarandi slæmra samskipta, eineltis á vinnustað, hvernig bregðast eigi við og ábyrgð gerenda og atvinnurekenda. Nemendur kynnast starfsemi stéttarfélagsins og réttindum félagsmanna Nemendur læra á innihald og uppbyggingu kjarasamninga og helstu túlkun á þeim. Nemendur kynnast sjóðum félagsins og réttindum félagsmanna í þeim.
Næst: 15. og  16. febrúar 2021                         

 

TRÚNAÐARMANNANÁM 3. HLUTI
Vefnámskeið. Megináhersla er lögð á grunntölur launaliða og launaútreikninga samkvæmt gildandi kjarasamningum, uppbyggingu launaseðla og mikilvægi þess að varðveita þá. Nemendur leysa verkefni tengdu efninu sem felst í að reikna út mánaðarlaun frá grunni ásamt frádráttarliðum. Nemendur kynnast almannatryggingakerfinu og réttindi þeim tengdum. Einnig er farið í uppbyggingu lífeyrissjóða og hlutverk þeirra og samspil þessara tveggja kerfa. Skráningu lýkur 15. mars klukkan 12:00.
NÆST: 22. og 23. mars 2021                        

TRÚNAÐARMANNANÁM 5. HLUTI
Vefnámskeið. Megináhersla er lögð á það hvernig sjálfstraust einstaklinga hefur áhrif á samskipti. Nemendur kynnast áhrifum skorts á sjálfstraust og ýmsar birtingamyndir þess. Nemendur kynnast leiðum til að efla sjálfstraustið og hvaða aðstæður geta haft áhrif á minnkandi sjálfstraust. Kynning á Vinnueftirlitinu, skyldum atvinnurekenda í vinnuvernd og trúnaðarmanna. Kynning á Virk-starfsendurhæfingarsjóðnum og starfi ráðgjafa hans. Skráningu lýkur 9. apríl klukkan 12:00.
NÆST: 12. og 13. apríl 2021 

 

 

Til baka