Fréttir

Til hamingju sjúkraliðar hjá sveit!

25 mar. 2020

Frábær þátttaka í atkvæðagreiðslunni um kjarasamninginn/styttingu vinnuvikunnar þ.s. um 62% tóku þátt og um 85% sögðu já!

Með samþykki þessa samnings eru sjúkraliðar sem starfa hjá sveitarfélögunum að taka undir og staðfesta áratuga baráttu sjúkraliða og forsvarsmanna Sjúkraliðafélagsins. Með samningnum erum við að ná fram gríðarlegum kjarabótum og loksins fjölskylduvænu starfsumhverfi. Ykkar niðurstaða er afgerandi og styður kjaramálanefnd í baráttunni. Takk fyrir það!

Við þetta er því að bæta að fulltrúar kjaramálanefndar voru með kynningarfund á Akureyri. Fjölmargir sjúkraliðar mættu þar sem málin voru rædd og fjölmargar spurninga bornar fram og þeim svarað af fullri einlægni. Því miður voru fundarhöld bönnuð strax eftir þennan fund, en það er ljóst að þessi samningur er viðamikill. Best hefði verið að kynna hann á fundum og hafa möguleika á að svara spurningum sem hvíla á sjúkraliðum, en slíkt var ekki í boði eins og alþjóð veit.

Sjúkraliðar hjá ríkinu eru hvattir til að skoða samninginn vel og ef einhverjar spurningar vakna, hika ekki við að hringja á skrifstofuna.

Samningurinn bætir ekki einungis starfsumhverfi sjúkraliða, þannig að 80% starf í vaktavinnu getur verið metið sem 100%, eins og meginkrafa félagsins hefur verið í mörg ár, heldur fylgja honum einnig umtalsverðar kjarabætur og samningurinn er afturvirkur.

Vilyrði er bókað í samninginn fyrir að koma fagháskólanáminu fyrir sjúkraliða af stað sem fyrst.

Til baka