Fréttir

Stefnumótandi ályktanir fulltrúaþings

25 maí. 2021

Sandra B. Franks, formaður,
í ræðustól á 30. fulltrúaþingi

Ályktun um mönnunarstefnu
30. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands leggur áherslu á að ný mönnunarstefna verði ein af grunnstoðum framtíðarsýnar samfélagsins um þróun heilbrigðiskerfisins. Fyrirsjáanleg fjölgun aldraðra og háaldraðra kallar á nýjar áherslur þar sem fela þarf stéttum í nærhjúkrun, eins og sjúkraliðum, meiri ábyrgð við stjórnun teyma og hjúkrunarmeðferða.

Þingið felur forystu félagsins að móta skýra stefnu um hlutverk sjúkraliða í nýrri mönnunarstefnu með áherslu á breyttar starfslýsingar og meiri ábyrgð í takt við aukna menntun og símenntun stéttarinnar. Forysta sjúkraliða á að taka þátt í og verða leiðandi í umræðu um mönnun heilbrigðiskerfisins til framtíðar. 

Fulltrúaþingið fagnar áherslum heilbrigðisráðherra á nýja mönnunarstefnu, sem m.a. birtist í stofnun þverfaglegs landsráðs um menntun og mönnun kerfisins. Með því er komið til móts við áherslur Sjúkraliðafélagsins. Félagið beinir þeim eindregnu tilmælum til heilbrigðisráðherra að tryggja áhrif sjúkraliða á vettvangi hins nýja ráðs.

Þingið gagnrýnir að engin bindandi lágmarksviðmið eru til um mönnun einstakra starfsstétta við íslenskar heilbrigðisstofnanir þó erlendar rannsóknir sýni skýra jákvæða fylgni milli öryggis og gæða þjónustunnar og mönnunarhlutfalls hjúkrunarstétta.

Þingið vekur athygli á, og gagnrýnir, að engar íslenskar rannsóknir eða úttektir hafa verið gerðar á tengslum milli útkomu gæðavísa í úttektum og mönnunarhlutfalls sjúkraliða. Þó liggja fyrir vísbendingar um beint samband sé á milli lægri tíðni vandamála sjúklinga (RAI gæðavísar) og hærra hlutfalls sjúkraliða á hjúkrunarheimilum.

Stjórnendur heilbrigðiskerfisins, sem þjóðin vill hafa í fremstu röð, verða að geta svarað því, hvað skortur á sjúkraliðum kostar sjúklinga og aldraða í minni lífsgæðum og skattborgarana í auknum útgjöldum. Fulltrúaþingið leggur því mikla áherslu á að heilbrigðisráðherra feli nýju landsráði að óska eftir úttektum frá eftirlitsstofnunum (Embætti landlæknis, Ríkisendurskoðun) á tengslum gæða þjónustunnar og mönnunarhlufalls sjúkraliða/fagstétta við kostnað á heilbrigðisstofnunum.

Niðurstöður slíkra úttekta þarf að leggja til grundvallar við mótun stefnu um menntun og mönnun í heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar.

Ályktun um forgangsréttinn
30. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands lýsir yfir vonbrigðum með að vaxandi brögð hafa verið á því síðustu misserin að stjórnendur virði ekki forgangsrétt sjúkraliða til sérhæfðra starfa og ráði ófaglært starfsfólk í störf þeirra.

Fulltrúaþingið felur forystu félagsins að fylgja eftir og skerpa áherslurnar á forgangsréttinn. Frá upphafi hefur rétturinn verið skýlaust varinn af löggjafanum, fyrst í lögum frá 1984 og í lögum um heilbrigðisstarfsmenn frá 2012 og reglugerðinni um sjúkraliða frá 2013.

Þingið leggur áherslu á að forgangsrétturinn er ekki einungis starfsréttur sjúkraliða sem löggilts heilbrigðisstarfsmanns, heldur einnig og ekki síður trygging sjúklinga/þjónustuþega fyrir gæðum þjónustunnar.

Skortur á sjúkraliðum verður ekki bættur með því að ráða ófaglært fólk á lægri launum í störf þeirra og rýra þannig gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Einfaldasta og besta leiðin til að fjölga sjúkraliðum er að bæta starfskjör stéttarinnar. Heilbrigðiskerfið verður að vera samkeppnisfært um vinnuafl vel menntaðra sjúkraliða.

Það er því skýlaus krafa Sjúkraliðafélags Íslands að stjórnvöld felli brott undanþáguákvæðið í reglugerð um sjúkraliða frá 2013 með sama hætti og þegar hefur verið gert gagnvart hjúkrunarfræðingum.

Ályktun um fagráð á hjúkrunarheimilum
30. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslandsfagnar því að úrelt lækna- og hjúkrunarráð á heilbrigðisstofnunum hafa nú verið lögð niður. Í stað þeirra hafa ný fagráð verið stofnuð hjá öllum heilbrigðisstofnunum landsins þar sem gert er ráð fyrir þátttöku sjúkraliða.

Fulltrúaþingið fagnar því að sjúkraliðar eiga nú í fyrsta sinn í sögunni aðild að fagráði Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana og taka eðlilegan þátt í að móta stefnu hjúkrunar. Með því er það langvinna baráttumál stéttarinnar í höfn.

Fulltrúaþingið beinir eindreginni áskorun til stjórnvalda um að breyta nýsamþykktum lögum þannig að fagráð verði einnig sett upp á hjúkrunarheimilum. Þannig yrði til vettvangur innan þeirra fyrir sjúkraliða, og aðrar heilbrigðisstéttir, til að miðla reynslu sinni og bæta öryggi sjúklinga og auka gæði þjónustunnar.

Í nýlegum úttektum Embættis landlæknis á hjúkrunarheimilum eru dæmi um að þar starfi hvorki gæðastjórnandi né sérstök gæðastjórn. Í sumum tilvikum eru hvorki virkir verkferlar til staðar né umbótahópar til að bregðast við niðurstöðu RAI mælinga. Dæmi eru um að starfsmenn hjúkrunarheimila séu ekki upplýstir um tilvist slíkra vinnuhópa.

Þetta er óásættanlegt og kallar á að fagráð verði einnig sett upp á hjúkrunarheimilunum þar sem sjúkraliðar, ásamt öðrum fagstéttum, geta nýtt innra aðhald og lagt fram tillögur um úrbætur sem tryggja betur gæði og öryggi þjónustunnar. 

Stefnumótandi ályktanir voru samþykktar samhljóða á 30. fulltrúaþingi Sjúkraliðafélags Íslands þann 18. maí 2021.

Til baka