Fréttir

Stefna stjórnvalda getur hægt á efnahagsbatanum

14 apr. 2021

BSRB kallar eftir frekari aðgerðum fyrir atvinnulausa og mótmælir áherslu stjórnvalda á að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs í umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Varað er við því í umsögninni að sú stefna sem mörkuð er í áætluninni geti hægt á efnahagsbata næstu ára.

Í umsögninni eru stjórnvöld hvött til að bregðast við miklu atvinnuleysi af fullum þunga. BSRB fagnar átaki stjórnvalda sem ætlað er að skapa um 7.000 störf fyrir atvinnulausa en bendir á að þessi aðgerð dugi ekki ein og sér. Því verði stjórnvöld að útfæra frekari aðgerðir til að skapa störf.

Fleiri störf í opinbera kerfinu
Aðhaldskrafa í velferðar- og heilbrigðiskerfinu er sérstaklega gagnrýnd og áhersla á útgjaldasamdrátt. „BSRB hafnar þessari stefnu um að draga úr mikilvægi opinberrar þjónustu og tilfærslna, og veikingu samfélagslegra iðnviða,“ segir í umsögninni.

BSRB varar sérstaklega við niðurskurði í opinberri þjónustu: „Þegar skorið er niður í opinberri þjónustu og dregið úr þjónustu við börn, aldraða og sjúka hefur það einnig neikvæð áhrif á framleiðni starfsfólks á vinnumarkaði af því að meiri tími fer í að sinna aðstandendum sem ekki fá fullnægjandi þjónustu,“ segir einnig í umsögninni.

BSRB bendir á að það er hægt að skapa góð störf, bæði tímabundið og til lengri tíma, í heilbrigðiskerfinu, félags- og velferðarþjónustu, skólakerfinu og í löggæslu. Ekki aðeins til að sporna gegn atvinnuleysi heldur einnig til að „styrkja þessi samfélagslega mikilvægu kerfi til að forða starfsfólki frá alvarlegum afleiðingum þess álags sem faraldurinn hefur valdið og til að veita mikilvæga þjónustu“.

Óskynsamlegt markmið
BSRB lýsir furðu á þeirri áherslu stjórnvalda að stöðva skuldasöfnun strax árið 2025. Ekki er hvatt til óábyrgrar skuldasöfnunar í umsögn bandalagsins en kallað eftir því að hagkerfið fái áframhaldandi svigrúm til að komast í gegnum efnahagsþrengingarnar. BSRB mótmælti áformum um aðhaldsaðgerðir í síðustu fjármálaáætlun og telur óráðlegt að halda áfram á sömu braut þrátt fyrir mun betri afkomu en gert var ráð fyrir í síðustu áætlun.

Þá er varað við því að skattar séu lækkaðir án þess að annarra tekna sé aflað í þeirra stað og BSRB bendir á tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um svokallaðan samstöðuskatt sem lagður verði á ríkasta og tekjuhæsta fólkið, og þau fyrirtæki sem hagnast hafa vegna heimsfaraldursins.



Til baka