Fréttir

Rætt um lífeyrismál og komandi kjaraviðræður

15 feb. 2019

Rætt var um lífeyrismál og helstu áherslur í komandi kjaraviðræðum á fjölmennum trúnaðarmannaráðsfundi Sjúkraliðafélags Íslands sem Sandra B. Franks, formaður, setti  þann 14. febrúar. Að auki var átaksverkefnið um ímynd sjúkraliða kynnt, farið var yfir menntamál sjúkraliða og uppfærð heimasíða félagsins opnuð.


Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ, greindi m.a. frá undirbúningi fyrir komandi kjaraviðræður og kynnti inntak kjara- og stofnanasamninga félagsins, mismunandi launaflokka- og launaþreparöðun.  Glærur með samanburði á kjarasamningum SLFI má finna hér.

Birna Ólafsdóttir, skrifstofustjóri SLFÍ, ræddi um samstarf félagsins við fjölbrautaskólana FB og FÁ auk Landspítala um að stofna vinnuhóp til að hrinda í framkvæmd námsleið, þ.e. sjúkraliðabrú, fyrir almenna starfsmenn Landspítalans. Einnig voru fundargestir upplýstir um framvindu á greiningu og tillögum Arnrúnar Höllu Arnórsdóttur, verkefnastjóra um fagnám á háskólastigi fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri.

Grétar Theodórsson, almannatengill, sýndi fimm myndbönd um starf og starfsumhverfi sjúkraliða sem er hluti af átaksverkefni félagsins um ímynd sjúkraliða.

Ágústa H. Gísladóttir, forstöðumaður réttindamála LSR, hélt framsögu um lífeyrismál og skýrði m.a. frá mismunandi réttindaávinnslu A og B deilda. Glærur Ágústu um lífeyrisréttindi í LSR má finna hér.  Nánari upplýsingar um lífeyrisréttindi, og reiknivélar lífeyris, er að finna hér á heimasíðunni.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB, heimsóttu fundinn. Sonja greindi frá áherslum BSRB í komandi kjaraviðræðum og ræddi m.a. styttingu vinnuvikunnar sem hefur verið eitt helsta baráttumál SLFÍ um árabil. Sjúkraliðar leggja mikla áherslu á að ná fram styttingu vinnuvikunnar, enda yrði það besta kjarabótin að mati sjúkraliða.

 

 

Til baka