Fréttir

Niðurskurður á Landspítalanum óásættanlegur að mati BSRB

12 des. 2019

Það er með öllu óásættanlegt að enn og aftur þurfi að grípa til harkalegs niðurskurðar á
Landspítalanum og grafa þannig undan heilbrigðiskerfinu, að mati BSRB. Stjórnvöld verða að
grípa til aðgerða til að leiðrétta stöðu spítalans og draga úr því gríðarlega álagi sem verið hefur
á starfsfólk hans.
Forstjóri Landspítalans hefur sagt að spítalann vanti um 3 milljarða króna til að viðhalda
óbreyttum rekstri og því þurfi bæði að fækka starfsfólki og lækka laun. Staða spítalans var
grafalvarleg fyrir, skortur á starfsfólki og álag á þá sem þar starfa gríðarlegt.

„Vandi spítalans á undanförnum árum hefur ekki síst verið skortur á heilbrigðisstarfsfólki, sér í
lagi sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. Aukið álag og launaskerðingar verða ekki til að bæta
þann vanda. Eðlilegra væri að leita allra leiða til að draga úr álagi og bæta kjörin til að fjölga í
þessum mikilvægu fagstéttum,“ segir Sandra B. Franks, stjórnarmaður í BSRB og formaður
Sjúkraliðafélags Íslands.

Yfirlýsingu BSRB má lesa hér.

Til baka