Menntasjóðir

Samkvæmt lögum um sjúkraliða ber þeim að viðhalda þekkingu sinni í samræmi við þær breytingar er verða innan heilbrigðiskerfisins. Einnig ber þeim að auka þekkingu sína með því að taka nám og eða námskeið er veita hagnýta sem og fræðilega menntun sem eykur gildi starfa sjúkraliða á þeim sviðum sem þeir starfa á. Til þess að koma til móts við þessar þarfir hefur ötult starf fræðslunefndar verið fólgið í því að bjóða upp á það nám og þau námskeið sem hafa þetta að markmiði. Sjúkraliðafélag Íslands hefur lagt áherslu á að sjóðir félagsins komi til móts við það markmið að sjúkraliðar geti menntað sig, haldið heilsu, náð heilsu, slakað á í orlofi og átt möguleika á að gera þetta án þess að fjárhagur komi í veg fyrir slíkt.

Markmið sjóða félagsins er að gera sjúkraliðum kleift að leita eftir fjárstuðningi vegna kostnaðar við nám, sem tengist starfi þeirra. Þeir sem hafa verið félagsmenn í 12 mánuði eiga rétt á styrk og rof á aðild getur aldrei verið lengri en 4 mánuðir.

Starfsmenntasjóður


Starfsmenntasjóður Sjúkraliðafélags Íslands er fjármagnaður með framlagi atvinnurekenda. Til sjóðsins greiðir ríkið  og SFV 0.32% af öllum launum, og þeir sem fylgja samningum þess 0.32% af öllum launum. Sveitarfélögin og Reykjavíkurborg greiða 0.30%.

Markmið sjóðsins er að styðja félagsmenn Sjúkraliðafélagsins til starfsnáms og símenntunar án verulegs kostnaðar svo þeir getið viðhaldið menntun sinni og þekkingu í samræmi við lög um heilbrigðisstarfsmenn.

Fjárhagur sjóðsins hefur svigrúm til að veita félagsmönnum allt að 60,000 kr. styrk á tveimur árum. Hafi sjóðfélagi fullnýtt sér styrkinn á hann ekki rétt á fjárveitingu úr sjóðnum næstu tvö árin.

Styrkir úr þessum sjóði eru einungis veittir sjúkraliðum til náms eða námskeiða sem beinlínis eru ætluð til að auka þekkingu þeirra, viðhalda menntun og tileinka sér framfarir í heilbrigðisþjónustu.

Skipulagsskrá Starfsmenntasjóðs Sjúkraliðafélags Íslands

Starfsþróunarsjóður


Starfsþróunarsjóður Sjúkraliðafélags Íslands er fjármagnaður með framlagi atvinnurekenda. Til sjóðsins greiðir ríkið 0.35% af öllum launum, SFV greiðir 0.65%, sveitarfélögin greiða 0.60% og Reykjavíkurborg greiðir 0.45%.

Markmið sjóðsins er að bæta möguleika félagsmanna til að auka menntun sína og tileinkað sér framfarir og tæknibreytingar á sínu sérsviði. Sjóðurinn styður sjúkraliða til að sækja námskeið sem gefur þeim möguleika á að taka að sér vandasamari störf.

Sjóðnum er einnig ætlað að styðja rekstur Fræðsluseturs félagsins. Hlutverk þess er m.a. að meta þörf fyrir fræðslu hjá stofnunum eða stofnanahópum auk þess móta námskeið sem svarar þeirri þörf.

Fjárhagur sjóðsins hefur svigrúm til að veita félagsmönnum allt að 100.000 kr. styrk á tveimur árum.

Þeir sem hafa verið félagsmenn SLFÍ í 12 mánuði eiga rétt á styrk og rof á aðild getur aldrei verið lengri en 4 mánuðir.

Hafi sjóðfélagi fullnýtt sér styrkinn á hann ekki rétt á fjárveitingu úr sjóðnum næstu tvö árin.

Styrkur úr Starfsþróunarsjóð greiðist eftir að réttur er fullnýttur í Starfsmenntasjóði. Félagsmenn geta fengið 45.000 kr. styrk vegna ferðakostnaðar og er sá styrkur hluti af hámarksréttindum.

Styrkir úr þessum sjóði eru veittir:

 1. Sjúkraliðum til að:
  a. sækja námskeið eða nám innanlands eða erlendis.
  b. kannanna eða ákveðinna verkefna sem teljast til endur-, viðbótar- eða símenntunar.
 2. Sjúkraliðafélags Íslands til:
  a. námskeiðahalds á vegum félagsins eða sem það stendur að í samvinnu við skóla eða aðrar menntastofnanir.
 3. Til stofnana sem eru aðilar að sjóðnum þ.e:
  a. ríkisstofnana, Reykjavíkurborgar, einstakra sveitarfélaga eða stofnanna á þeirra vegum og/eða annarra stofnanna sem greiða til sjóðsins af tekjum félagsmanna.
 4. Sérstök verkefni sjóðsstjórnar:
  a. verkefni og/eða nám sem sjóðstjórn skipuleggur.
 5. Fræðslusetur SLFÍ:
  a. sjóðurinn greiðir framlag til rekstur Fræðsluseturs SLFÍ samkvæmt reglum og/eða ákvörðun stjórnar sjóðsins á hverjum tíma. Auk þess styrkir sjóðurinn verkefni sem aðilar semja um í kjarasamningi.

Umsóknir skulu sendar til stjórnar sjóðsins þar sem fram kemur lýsing á því fræðsluverkefni sem sótt er um styrk til, skipulagi þess, efnisinntaki, áætlaðri framkvæmd, kostnaði, öðrum styrkjum og framlagi umsækjanda. Auk þess þarf að skila frumriti af kvittunum fyrir námskeiðs- eða skólagjöldum. Úthlutun úr sjóðnum fer að jafnaði fram ársfjórðungslega.

Sjá úthlutunarreglur

                                                                                               

 

Til baka