Fréttir

Mikilvægt að leggja áherslu á óhagnaðardrifið rekstrarform í stað markaðsvæðingar

15 jún. 2021

Hagnaðardrifin öldrunarþjónusta í Svíþjóð hefur haft í för með sér að tekjuhærri einstaklingar nýta sér frekar einkarekna þjónustu en tekjulægra fólk reiðir sig á opinbera þjónustu. Þetta kom fram í erindi sem Marta Szebehely, prófessor emeritus í félagsráðgjöf við Stokkhólmsháskóla, flutti á sameiginlegum fundi ASÍ og BSRB um markaðsvæðingu öldrunarþjónustu 10. júní síðastliðinn. Marta hefur rannsakað skipulag og einkavæðingu öldrunarþjónustu í Svíþjóð í norrænum og alþjóðlegum samanburði.

Tekjulægra fólk reiðir sig frekar á opinbera þjónustu
Meirihluti almennings í Svíþjóð er mótfallinn hagnaðardrifinni öldrunarþjónustu, en í dag eru tvö stór einkafyrirtæki með um helminginn af einkavæddum markaði þjónustunnar. Frá 2007 hafa Svíar notið skattaafsláttar vegna heimilis- og umönnunarþjónustu og það eru frekar tekjuhærri einstaklingar sem hafa nýtt sér einkareknu þjónustuna, en tekjulægra fólk reiðir sig frekar á opinbera þjónustu. Norræna hugmyndin um jafnt aðgengi er því í hættu og ójöfnuður meðal eldri borgara eykst. Samhliða einkavæðingunni hefur opinbera þjónustan dregist saman og hlutverk fjölskyldunnar í umönnun aukist, sérstaklega kvenna.

Á veffundi Mörtu Szebehely, Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanns BSRB, og Drífu Snædal, forseta ASÍ, kom fram að einkavæðing öldrunarþjónustunnar er að aukast á Íslandi og að mismunandi fjárhagsstaða aldraðra hafi áhrif á möguleika þeirra til þjónustu. Einkavæðingin hefur líka áhrif á kjör starfsfólks. Nýleg einkavæðing hjúkrunarheimila á Akureyri hefur haft í för með sér lækkun launa og skerðingu réttinda starfsmanna. Má því velta fyrir sér hvort verið sé að svelta opinberu þjónustuna á Íslandi til að réttlæta einkavæðingu.

Markmið nærrænnar velferðarþjónustu í hættu
Markmiðið norrænnar velferðarþjónustu er að tryggja jafnt aðgengi allra að hágæða þjónustu, óháð efnahag og félagslegri stöðu. Öldrunarþjónusta á Norðurlöndunum er fjármögnuð af opinberu fé og var lengi vel einungis veitt af opinberum aðilum. Það hefur þó breyst á síðastliðnum áratugum og nú er um 20 prósent þjónustunnar í Svíþjóð og Finnlandi hagnaðardrifin en innan við 5 prósent í Danmörku og Noregi, þar sem staðinn hefur verið vörður um að slík þjónusta sé ekki hagnaðardrifin, auk þess sem verkalýðshreyfingin barðist gegn einkavæðingu. Opinbert fé er nýtt til að reka hagnaðardrifna þjónustu, án þess að yfirsýn um notkun fjármunanna sé til staðar, en kostnaður vegna eftirlits hefur aukist. Marta Szebehely hefur lagt til að skilyrða verði að ákveðið hlutfall af framlögunum fari í launagreiðslur til almennra starfsmanna. Það bætir þjónustuna, tryggir betri laun og dregur úr hagnaði.

Gæðin virðast heldur ekki hafa aukast við að markaðssvæða þjónustuna. Þar er mönnunin minni, minna um fastráðningar og þjálfun. Ekki er þó hægt að meta mun í ánægju notendanna milli rekstrarforma. Fólk sem er að velja öldrunarþjónustu á erfitt með að meta gæðin, auk þess sem það er í viðkvæmri stöðu og mjög háð þjónustunni.

Líkt og í Svíþjóð eru það ekki almenningur á Íslandi sem er að kalla eftir markaðsvæðingu þjónustunnar. Það eru því þeir sem hagnast á einkarekstri sem hafa knúið á um kerfisbreytingar. Ef vilji er til að auka valfrelsi í öldrunarþjónustu er mikilvægt að leggja áherslu á óhagnaðardrifin rekstrarform í stað markaðsvæðingar og þeirri arðsækni sem henni fylgir.

Til baka