Fréttir

Miðar áfram en engin niðurstaða um vaktavinnu

20 jan. 2020

Vinnu við útfærslu á styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar hjá vaktavinnufólki hélt áfram í húsnæði ríkissáttasemjara alla helgina. Verkinu miðaði hraðar áfram en áður en niðurstaða er ekki í sjónmáli.

Krafan um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar er ein af stærstu kröfum BSRB í kjarasamningsviðræðunum. Þegar hefur náðst áfangi með samkomulagi um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu en eftir stendur útfærsla hjá vaktavinnufólki. Um það bil 2.100 starfandi sjúkraliðar eru í Sjúkraliðafélagi Íslands og um 90% félagsmanna eru í vaktavinnu. Stór hópur sjúkraliða vinnur á sólarhringsvöktum og mikil áhersla hefur verið á að stytta vinnuviku þeirra og draga þannig úr álagi.

Kjarasamningar þorra aðildarfélaga bandalagsins hafa verið lausir frá því í byrjun apríl 2019 og mikillar óþreyju farið að gæta hjá forystu og félagsmönnum vegna þess hversu lengi samningar hafa dregist.Næstu skref eru þau að fulltrúar BSRB og viðsemjendur bandalagsins munu hitta sitt bakland og fara yfir stöðuna eftir fundartörn helgarinnar. Næsta fundarlota um styttingu vinnuvikunnar mun hefjast á fimmtudag og líklegt að unnið verði að útfærslu út næstu helgi.

Samhliða verður unnið að öðrum stórum málum sem enn er ósamið um, svo sem jöfnun launa milli markaða og launaþróunartryggingu. Þá þurfa aðildarfélögin að ræða launahækkanir, en umboðið til að ræða um launaliðinn er hjá hverju félagi fyrir sig, ekki á sameiginlegu borði BSRB.

Til baka