Fréttir

Mannauðsstjórnun eða „þrælahald“

8 okt. 2018

treatment 1327811 1280 copy

Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ, vekur athygli á starfsumhverfi sjúkraliða í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag, 8. október 2018 og þá réttmætu og skynsamlegu kröfu að vinnuvikan verði stytt í 30 – 35 klukkustundir.

Í greininni ber Gunnar Örn saman aðbúnað sjúkraliða á heilbrigðisstofnunum og vaktavinnufólks í stóriðju og bendir á að að sjúkra­liði í 100% starfi skil­i af sér 173,33 vinnu­stund­um á mánuði að jafnaði eða 21,6 vökt­um á mánuði, ef unnið er á átta tíma vökt­um.

„Því miður hafa sjúkra­liðar ekki getað treyst því að vakt­irn­ar séu reglu­bundn­ar átta tíma vakt­ir þar sem marg­ir mis­vitr­ir vinnu­veit­end­ur hafa þvingað starfs­fólk á styttri „ak­korðsvakt­ir“ þar sem álagið er gríðarlegt og laun­in jafn­framt lægst. Á heilu ári skil­ar sjúkra­liði að jafnaði 1.800 vinnu­stund­um þegar dreg­in hafa verið frá lög­bund­in frí.“

Vaktavinnufólk í stóriðjum, sem er að 90% hluta karlmenn, skilar hins­veg­ar 144 vinnu­stund­um á mánuði að jafnaði, eða 18 vökt­um á mánuði og þau geta treyst því að vakt­irn­ar eru átta tím­ar og einnig því að fá fulla vinnu. Á heilu ári skil­ar starfsmaður í stóriðjunni um 1.600 vinnu­stund­um þegar or­lof og vetr­ar­leyfi hafa verið dreg­in frá. Mismunur á vinnuskilum þessara tveggja starfsstétta er allt upp í 25 vaktir, eða allt upp í rúmlega mánuði minni vinnuskil en hjá sjúkraliða. 

Mannauður sjúkraliða

Veikindi sjúkraliða sem starfa innan heilbrigðiskerfisins eru á bilinu 9 – 11% af vinnuskyldu ársins, sem nemur u.þ.b. 25 vöktum á ári. Stöðugildi sjúkraliða hjá ríkinu eru um 770, af því leiðir í heild u.þ.b. 19.250 veikindadaga einungis hjá sjúkraliðum sem starfa hjá ríkinu. Hver dagur kostar að meðaltali 24 þúsund krónur, sem gerir að vinnuframlag að andvirði 462 milljóna króna á ári fellur niður og tapast. Ekki er reiknað með viðbótar kostnaði vegna afleysinga.

Landspítali – háskólasjúkrahús, stærsti vinnustaður sjúkraliða, kannaði m.a. starfsánægju sinna starfsmanna og þar kom fram að um 30% þeirra sem starfa á spítalanum treysta sér ekki til að mæla með vinnustaðnum sínum og einungis 40% eru sátt við launakjör sín. LSH gerði könnun árið 2010 þar sem spurt var: „Er LSH aðlaðandi vinnustaður?“ Í ljós kom að innan við helmingur, eða 47% þeirra sem unnu á þeim sviðum sem sjúkraliðar störfuðu á, svaraði því játandi. Öll umræða um að fjölga ákveðnum heilbrigðisstéttum í námi, þ.m.t. sjúkraliðum, og fá fleiri til starfa er innihaldslaus að óbreyttum starfskjörum.

Staðan og krafan í dag

Það er réttmæt og skynsamleg krafa sjúkraliða og annarra opinberra starfsmanna að vinnuvikan verði stytt í 30-35 klst. og verði enn styttri við ákveðinn lífaldur þar sem það hefur sýnt sig að það starfsumhverfi sem í boði er í stóriðju á Íslandi skilar árangri.

Það er ekki forsvaranlegt fyrir hið opinbera, sem vinnuveitanda, að fara illa með sitt starfsfólk. Bætt starfskjör skila árangri og hið opinbera mun fá umrædda breytingu margfalt til baka í bættri heilsu sjúkraliða og miklu meiri starfsánægju eins og hefur sýnt sig annars staðar.

 

Greinina má lesa í heild sinni hér

 

Til baka