Fréttir

Launaþróunartrygging – launaskrið

23 apr. 2019

Laun sjúkraliða sem vinna hjá sveitarfélögum og Reykjavíkurborg hækka um 1,5% frá 1. janúar 2019.
Laun sjúkraliða sem starfa hjá ríkinu munu ekki hækka að þessu sinni þar sem laun þeirra, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands, hækkuðu meira en sem nemur hækkunum á almenna vinnumarkaðinum á síðasta ári.

Mögulega mun hækkunin koma til framkvæmda frá næstu mánaðarmótum hjá einhverjum vinnustöðum en hjá öðrum um mánaðarmótin maí-júní. Hækkunin er afturvirk frá 1. janúar.

Launaþróunartryggingin varð til með undirritun rammasamkomulags milli ríkisins, sveitarfélaga, BSRB, ASÍ og Samtaka atvinnulífsins í október 2015. Þetta er þriðja og síðasta mælingin þar sem borið er saman launaskrið á almenna markaðinum og hinum opinbera. Opinberum starfsmönnum er í kjölfarið bætt upp það launaskrið sem orðið hefur á almenna markaðinum umfram það sem orðið hefur á þeim opinbera.

Tilgangurinn með launaþróunartryggingunni er meðal annars sá að tryggja að laun á opinbera vinnumarkaðinum sitji ekki eftir og að þar með myndist uppsöfnuð þörf á hækkun þegar kemur að kjarasamningum. Hækkanirnar sem fást vegna hennar koma til viðbótar við kjarasamningsbundnar hækkanir.

Til baka