Símenntun og framhaldsnám

Ávinnur starfsmaður sér námsleyfi í fæðingarorlofi?

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um fæðingarorlof nr. 95/2000 reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta Hið sama gildir um ávinnslu námsleyfis.
Eiga starfsmenn sem stunda endurmenntun/framhaldsnám erlendis rétt á greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar?
Það er heimilt en ekki skylt samkvæmt ákvæðinu, að greiða ferða- og dvalarkostnað samkvæmt 5. kafla. Í grein 5.1 segir að fargjöld á ferðalögum erlendis greiðist eftir reikningi og í grein 5.7 segir að dagpeningar vegna námskeiða, þjálfunar- og eftirlitsstarfa séu ákveðnir af Ferðakostnaðarnefnd.

Er námið bundið við nám á háskólastigi og ef ekki, hvaða annað nám fellur undir ákvæðið?

Námsleyfi er ekki bundið við nám á háskólastigi nema slíkt sé tekið fram í starfsþróunaráætlun stofnunar. Vel má hugsa sér að stofnun sjái sér hag í því að ráða kennara/leiðbeinanda sem skipuleggur og kennir afmörkuðum hópi innan stofnunar sérstakt námsefni sem tryggir aukna og betri þekkingu starfsmanna og stuðlar þá um leið að bættri þjónustu viðkomandi stofnunar. Sí- og endurmenntun getur líka falist í því að ákveðnum starfsmanni er falið að sækja námskeið/þjálfun og miðla síðan þekkingu sinni til annarra starfsmanna. Eins getur hún falist í starfsskiptum innanhúss, sjálfsnámi o.fl.

Frá hvaða tíma ávinnur starfsmaður sér rétt til að fara í námsleyfi?

Ávinnslan hefst þegar starfsmaður hefur störf hjá stofnun og starfsmaður ávinnur sér tveggja vikna leyfi á hverju ári. Að hámarki getur starfsmaður áunnið sér 6 mánuði. Þegar starfsmaður hefur unnið í fjögur ár hjá stofnun öðlast hann rétt til að stunda endurmenntun/framhaldsnám enda sé það í samræmi við endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun viðkomandi stofnunar eða starfsmanns.
Þetta er ekki nýtt ákvæði eins og áður sagði heldur var eldra heimildarákvæði breytt í kjarasamningum þeirra félaga sem samið hafa um þessa breytingu þannig að nú á starfsmaður rétt til að stunda endurmenntun/framhaldsnám að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Dæmi: Starfsmaður hefur unnið í átta ár hjá stofnuninni. Hann fór í tveggja vikna námsleyfi 2009. Hver er réttur hans til námsleyfis í dag?
Starfsmaðurinn hefur unnið í átta ár og á því rétt á fjögurra mánaða námsleyfi. Hann hefur hins vegar þegar fengið tveggja vikna leyfi sem dregst frá þessum fjórum mánuðum. Réttur hans er því 3 ½ mánuður. Þegar hann sækir um þarf að aðgæta hvort leyfið sé í samræmi við endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun viðkomandi stofnunar eða starfsmanns sé hún til staðar. Ennfremur hvort gæta þurfi að takmörkunum vegna þess aðsókn um námsleyfi valdi erfiðleikum í rekstri stofnunarinnar sbr. bókun 4 með kjarasamningnum.

Hefur mismunandi starfshlutfall á ávinnslutíma áhrif?

Starfsmaður á almennt rétt á námsleyfi miðað við það starfshlutfall sem hann er í þegar sótt er um leyfið. Athuga þarf þó vel rétt starfsmannsins ef starfsmaður hefur verið í mjög skertu starfshlutfalli.

Hvað gerist ef starfsmaður sækir um námsleyfi og stofnunin hefur ekki mótað sér endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun?

Samkvæmt ákvæðinu á starfsmaður rétt á leyfi til að stunda endurmenntun/framhaldsnám þó stofnun hafi ekki mótað sér endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun.
Stofnun getur ekki hafnað beiðni starfsmanns um námsleyfi með þeirri ástæðu einni að hún hafi ekki mótað sér endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun.
Því er mjög mikilvægt fyrir stofnanir ríkisins að setja bæði stofnuninni og starfsmönnunum endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun. Með því geta stofnanir frekar styrkt bæði starfsemi stofnunarinnar og starfsmennina. Það í raun forsenda þess að endurmenntun starfsmanna nýtist í starfi þeirra og að kostnaður sé innan þeirra marka sem stofnun ræður við.
Sæki starfsmaður um leyfi til að stunda endurmenntunar-/framhaldsnám og fyrir hendi er starfsþróunaráætlun en námið fellur ekki að forsendum hennar er stofnuninni heimilt að hafna umsókninni.

Hverjar eru kröfur um námsframvindu, t.d. ef starfsmaður fer í sex mánaða endurmenntun?

Það er stofnunar að setja viðmið um námsframvindu ef hún telur slíkt nauðsynlegt.

Hvernig er best að ganga frá umsóknum?

Nokkrar stofnanir hafa nú þegar tekið upp fræðsluhluta Orra og er þar hægt að halda utan um umsóknir um fræðslu. Aðrar stofnanir geta farið í gegnum sjálfsafgreiðsluhluta Orra, þar er að finna í ferli starfsmannasamtala frjálst form þar sem hægt er að fylla út umsóknir um fræðslu. Jafnframt geta stofnanir útbúið sérstakt umsóknareyðublað fyrir stofnunina. Þar getur t.d. komið fram heiti náms eða námskeiðs, lýsing á námi/námskeiði, hvernig námið tengist við starf viðkomandi hjá stofnuninni, hve langt námið/námskeiðið sé, hvenær námið/námskeiðið hefjist og hvenær náminu /námskeiðinu lýkur. Einnig getur komið fram hvar námið/námskeiðið er haldið, hlutfall fjarveru frá vinnu 2 (verður umsækjandi í 100% leyfi frá starfi vegna náms/námskeiðs eða mun umsækjandi vera með skertan vinnutíma á meðan á námi stendur). Ef svo er að hvaða leiti verður vinnutími skertur.

Þar sem engir fjármunir fylgja, hvernig skal þá fara með afleysingar fyrir þá starfsmenn sem fara í lengra leyfi?

Það er stofnunar að finna lausn á því hvernig farið er með afleysingar, fari starfsmenn í lengri leyfi sem undirstrikar enn og aftur nauðsyn þess að stofnanir setji sér endurmenntunar-/starfsþróunaráætlanir.

Til baka