Orlofsréttur

Hver er minn réttur til orlofs?

Orlofsréttur skiptist í tvennt, þ.e.

  1. Rétt starfsmanns til að taka sér leyfi frá störfum.
  2. Rétt til launagreiðslna á meðan orlofinu stendur.

Lögbundið lágmarksorlof eru tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári. Reiknast hálfur mánuður eða meira sem heill mánuður, skemmri tími telst ekki með.

Það telst til vinnutíma þegar maður er frá vegna veikinda eða slysa meðan hann fær greitt kaup eða hann er í orlofi.

Hve langur er orlofsréttur minn?

Lágmarksorlof miðað við fullt starfsár er 192 vinnuskyldustundir eða 24 dagar. Orlofsrétturinn reiknast alltaf hlutfallslega út frá starfshlutfalli og starfstíma. Starfsmaður sem unnið hefur hluta af fullu starfi eða hluta úr ári, skal fá í orlof 16 vinnuskyldustundir fyrir fullt mánaðarstarf.

Þegar starfsmaður í vaktavinnu fer í orlof, skal hann fá óyggjandi upplýsingar um hvenær honum beri að mæta á vakt að orlofi loknu. Miðað skal að jafnaði við að vaktskrá haldist óbreytt.

Hjá opinberum starfsmönnum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, er aukinn réttur miðaður við lífaldur en ekki starfsaldur eins og venjan er á almennum vinnumarkaði. Í samningum við ríki, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga er orlofsrétturinn 192 vinnuskyldustundir (24 dagar) þar til viðkomandi nær þrítugsaldri, þá lengist hann í 216 vinnuskyldustundir (27 daga). Þá lengist og orlofsrétturinn í 240 vinnuskyldustundir (30 daga) við 38 ára aldur.

Einstaklingar eiga rétt á lengri orlofsrétti á því ári sem sem hann verður 30 eða 38 ára. Með öðrum orðum, ef starfsmaður á t.d. 30 ára afmæli í desember en tekur orlof í júlímánuði á hann rétt á 216 stunda orlofi (27 dagar).

Hvenær er orlofstímabilið?

Tímabil sumarorlofs er frá 1. maí til 15. september. Starfsmaður rétt á því að fá 160 vinnuskyldustunda orlof sitt á því tímabili og allt að fullu orlofi á sama tíma, verði því viðkomið vegna starfa viðkomandi stofnunar.

Sé orlof eða hluti orlofs tekið eftir að sumarorlofstímabili lýkur, skal sá hluti orlofsins lengjast um fjórðung. Sama gildir um orlof sem tekið er fyrir sumarorlofstímabil að beiðni stofnunar.

Hver ákveður orlofstímabilið mitt?

Yfirmaður ákveður í samráði við starfsmenn hvenær orlof skuli veitt. Honum er skylt að verða við óskum starfsmanna um hvenær orlof skuli veitt og skal það veitt á sumarorlofstíma, sé þess óskað af hálfu starfsmanns og því verður við komið vegna starfa stofnunarinnar.

Yfirmaður skal að lokinni könnun á vilja starfsmanna tilkynna svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast nema sérstakar ástæður hamli.

Hver er réttur minn þegar ég veikist í orlofi?

Veikist starfsmaður í orlofi telst sá tími sem veikindum nemur ekki til orlofs enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann hafi ekki getað notið orlofs. Tilkynna skal yfirmanni án tafar með sannanlegum hætti ef um veikindi eða slys er að ræða.

Fyrning orlofs

Orlofstöku skal alltaf vera lokið fyrir lok orlofsársins. Einu frávik þeirrar reglu að orlofi skuli lokið fyrir lok orlofsársins er alla jafna að finna í 4. kafla kjarasamninga en svo að heimilt sé að fresta orlofi lengur en sem nemur orlofsárinu þarf að uppfylla eitt af tveimur skilyrðum. Þannig er það gert að skilyrði að starfsmaður óski eftir að fresta orlofinu og yfirmaður gefi samþykki sitt eða að orlofinu sé frestað að ósk yfirmanns, sjá einnig Héraðsdóm Reykjavíkur í máli nr. E-1956/2000.

Er heimilt að fresta orlofi milli ára?

Starfsmanni er heimilt með samþykki forstöðumanns/yfirmanns að fresta töku orlofs eða hluta af orlofi um eitt ár. Í stað þess að taka orlofið á yfirstandandi orlofstökuári er töku þess frestað til næsta orlofstökuárs. Ljúka þarf töku hins frestaða orlofs fyrir lok næsta orlofstökuárs, annars fellur það niður. Áunnið og gjaldfallið orlof getur þannig mest verið tvöfalt, þ.e. það sem gjaldféll við upphaf yfirstandandi orlofsárs og frestað gjaldfallið orlof frá árinu á undan (aldrei lengra en 60 dagar).

Er leyfilegt að taka hálfan orlofsdag eða t.d. tvær klukkustundir?

Orlof er mælt í vinnuskyldustundum en almenna reglan er sú að miða ekki við minna orlof en hálfan dag í senn. Um þetta getur þó hver vinnustaður sett reglur.

Hvernig er lengingu orlofs háttað samkvæmt kjarasamningi, annars vegar töku orlofs og hins vegar orlofsuppgjör vegna starfsloka?

Sé orlof tekið utan sumarorlofstímabils skal sá hluti orlofs lengjast, þ.e. yfirleitt um 1/4. Til slíkrar lengingar kemur jafnvel í þeim tilvikum þegar eingöngu er verið að koma til móts við óskir starfsmanns. Lengingin er þó háð því að um ósk stjórnanda sé að ræða þegar í hlut eiga starfsmenn er taka laun samkvæmt kjarasamningum við önnur félög en stéttarfélög opinberra starfsmanna.

Lenging reiknast ekki á orlof sem er tekið fyrirfram að ósk starfsmanns, þ.e. orlof sem er áunnið en ógjaldfallið. Lenging reiknast ekki á orlof þegar það er greitt við starfslok (orlofsuppgjör).

 

Til baka