Fréttir

Hlé á kjaraviðræðum

25 jún. 2019

Það stefnir í að hlé verði gert í júlí á kjaraviðræðum BSRB og Sjúkraliðafélags Íslands við ríki og sveitarfélög. Til stendur að skrifa undir samkomulag við ríkið um friðarskyldu til 15. september og að 105 þúsund krónur verði greiddar 1. ágúst sem fyrirframgreiðsla vegna væntanlegra launahækkana. Samkomulag hefur einnig náðst við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg um framhald kjaraviðræðna. Eins og í samkomulagi við ríkið er kveðið á um að launagreiðendur greiði félagsmönnum aðildarfélaga BSRB 105 þúsund króna innágreiðslu þann 1. ágúst næstkomandi.

Samningar hafa verið lausir frá 1. apríl og segja má að hvorki hafi gengið né rekið í viðræðunum undanfarið. Styttingu vinnuvikunnar er ein meginkrafa BSRB í yfirstandandi kjaraviðræðum. Bandalagið hefur komið að tilraunarverkefnum um styttingu vinnuvikunnar á fjölda vinnustaða í samstarfi við vinnuveitendur. Krafa BSRB fellur að kröfu Sjúkraliðafélags Íslands um að vinnutími starfsmanna í dagvinnu verði 35 stundir á viku, og að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks, án launaskerðingar. BSRB leiðir viðræðurnar um styttingu vinnuvikunnar í yfirstandandi kjaraviðræðum, því krafan um að styttri vinnutíma launafólks nær til allra félaga bandalagsins og fer í miðlæga samninga samningsaðila. Áhersla BSRB er að vaktavinnuhópar verði í forgrunni enda er ógerningur að manna vaktavinnu starfsmanna í 100% starfi án þess að brjóta vinnutímaákvæði. Bandalagið leiðir einnig viðræður um aðra þætti eins og launaþróunartryggingu, jöfnun launa á milli markaða og starfumhverfi. Viðfangsefnið er umfangsmikið og virðist flókið til úrlausnar þar sem umræðan snýst ekki um eina ríkisleið í styttingu á vinnutíma starfamanna. Þá hefur Embætti sáttasemjara ríkisins boðað lokun vegna sumarleyfa starfsmanna frá 1. júlí og fram yfir verslunarmannahelgi. Sáttasemjari hefur áður gripið til þessa enda vonlaust er að halda uppi kjaraviðræðum þegar flestir eru í sumarfrí.

Samkomulagið um endurskoðaða viðræðuáætlun kveður á um að miðast skuli við að kjarasamningum verði lokið fyrir 15. september. Það þýðir að friðarskylda gildir fram að þeim tíma. Vegna tafa á viðræðunum fá launamenn hjá ríkinu 105 þúsund króna fyrirframgreiðslu eða eingreiðslu miðað við full starf upp í væntanlegar launahækkanir sem greidd verður út 1. ágúst.

Til baka