Fréttir

Gengur hægt í viðræðum

22 okt. 2015

 

11947887 982706348460491 2862315167618011264 o

Verkfall, SLFÍ  SFR og LL hefur nú staðið í tæpa viku. Fyrstu lotu í allsherjarvinnustöðvun er lokið og lögðu um fimm þúsund starfsmenn niður vinnu í fjóra daga. Félagsmenn SFR sem starfa hjá Tollstjóra, Ríkisskattstjóra og sýslumannsembættunum og Landspítala eru áfram í ótímabundnu verkfalli og einnig eru sjúkraliðar sem starfa á dagvöktum á Landspítala, Heilsustofnun Austurlands og Heilsustofnun Suðurnesja í verkfalli á dagvöktum alla virka daga.

Samninganefndir félaganna og samninganefnd ríkisins undir stjórn sáttasemjara hafa fundað alla verkfallsdagana fram á kvöld og reynt að ná samningum. Viðræður hafa verið í gangi og eitthvað þokast í rétta átt, en hægagangurinn er mikill og hafa félögin ýtt á að lausn finnst sem fyrst svo binda megi enda á þessa erfiðu deilu sem hefur nú þegar haft mikil áhrif á samfélagið allt. Formenn félaganna minna á að enn sé fjöldi fólks í verkfalli og mikilvægar stofnanir meira og minna lamaðar vegna þessa. Það sé ástand sem stjórnvöld beri ein ábyrgð á, samningar séu búnir að vera lausir frá því í lok apríl og það hafi verið neyðarbraut að grípa til verkfallsaðgerða vegna sinnuleysis þeirra.

Undanþágunefndir félaganna hafa setið við fram á kvöld alla dagana síðan verkfalls hófst og afgreiða beiðnir frá stofnunum sem enn eru að berast. Mikið álag hefur verið á fulltrúum í nefndunum enda hefur verkfallið áhrif á starfsemi um 160 stofnana sem margar hverjar eru grundstoðir í íslensku velferðarkerfi. Þau gífurlegu áhrif sem verkfall SFR félaga og sjúkraliða hefur á samfélagið nú sýnir okkur svart á hvítu mikilvægi þeirra starfa sem félagsmenn þessara félaga sinna og eflir okkur enn frekar í því að krefjast bættra kjara.

Til baka