Fréttir

Formaður SLFÍ í heimsókn til Norðurlandsdeildar eystri

16 okt. 2018

Fundur Ak mynd

Síðastliðinn fimmtudag heimsótti Sandra B. Franks, formaður SLFÍ, sjúkraliða hjá Norðurlandsdeild eystri. Þar sótti hún trúnaðarmannafund og aðalfund deildarinnar. Sjúkraliðar á Norðausturlandi fjölmenntu á fundinn og ræddi áherslur og væntingar í komandi kjaraviðræðum.  Á fundinum var Hafdís Dögg Sveinbjarnardóttir endurkjörin sem formaður Norðurlandsdeildar eystri. Sjúkraliðarnir Freydís Anna Ingvarsdóttir, Kristín Helga Stefánsdóttir, Bergþóra Heiðbjört Bergsþórsdóttir, Harpa Hlín Jónsdóttir og Ingibjörg Ósk Helgadóttir hlutu einnig endurkjör í stjórn deildarinnar.  

Sandra heimsótti einnig Öldrunarheimilið Hlíð, þar sem þau Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri og Helga Erlingsdóttir hjúkrunarforstjóri kynntu starfsemina, stefnu og fyrirhugað nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu. Stefnt er að því að umbreyta og aðlaga þjónustuna og bjóða upp á fjölbreytta dagþjónustu með þjálfun þar sem reynt er að mæta ólíkum þörfum skjólstæðinga. Inntaki þjónustunnar og opnunartíma á að breyta þar sem áhersla verður á dagþjónustu með opnunartíma fram á kvöld, alla daga vikunnar og einnig um hátíðir. Einnig á að horfa til þess að mæta aðstæðum fólks sem óskar eftir sólarhringsdvöl, t.d. vegna tímabundinna veikinda.

Sandra átti einnig fund með sjúkraliðum sem starfa á Hlíð þar sem rætt var um fyrirhugaðar breytingar á öldrunarþjónustu ásamt stefnu og framtíðarsýn Öldrunarheimilisins. 

Til baka