Fréttir

Fjölsótt ráðstefna um réttindi aldraðra

27 apr. 2018

Ráðstefna Sjúkraliðafélags Íslands um réttindi aldraðra, sem haldin var á Hotel Natura í gær (26. apríl), var vel sótt og góður rómur gerður að erindum fyrirlesara sem fjölluðu um réttindamál aldraðs fólks hér á landi og erlendis. Ráðstefnustjóri var Ögmundur Jónasson fyrrverandi heilbrigðisráðherra.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður SLFÍ, setti ráðstefnuna. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, flutti ávarp, en síðan gerði Hanna Lára Steinsson, félagsráðgjafi, grein fyrir helstu atriðum í fyrirlestri um framtíðarhorfur öldrunarþjónustu í Noregi sem Line Miriam Sandberg, ráðuneytisstjóri í nýju ráðuneyti Norðmanna sem sinnir öldruðum og lýðheilsu, gat ekki flutt vegna veikinda. Hanna Lára ræddi einnig um stefnu Dana og Svía í öldrunarþjónustu.

Bryndís Þorvaldsdóttir, sérfræðingur í Velferðarráðuneyti, svaraði spurningunum: Að hvaða marki er til mótuð stefna í öldrunarmálum á Íslandi? Hver mótar stefnuna? Síðan kynnti Elín Oddný Sigurðardóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, stefnu Velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Eftir kaffihlé flutti Laura Sch. Thorsteinsson hjá Embætti landlæknis fyrirlestur sem hún nefndi: Er stefnu fylgt? Hver hefur eftirlit? Og hver veitir aðhald?

Pálmi V. Jónsson, öldrunarlæknir, ræddi þörf fyrir öldrunargeðdeild, og Ólafur Samúelsson, öldrunarlæknir, svaraði spurningunni hvort þörf væri á sértækri líknardeild fyrir aldraðra.

Síðustu fyrirlesarar dagsins voru Margrét Guðnadóttir, hjúkrunarfræðingur og doktorsnemi og Guðmunda Steingrímsdóttir, sjúkraliði, sem tóku fyrir spurninguna: Er heima best?

Ögmundur Jónasson tók saman helstu atriði fyrirlestranna í lokin áður en Þórdís S. Hannesdóttir, formaður sérdeildar Sjúkraliðafélags Íslands, sleit velheppnaðri ráðstefnu.

Glærur frá ráðstefnu:

SLFI radstefna

Til baka