Fréttir

Alþjóða lifrarbólgudagurinn

20 nóv. 2019

Tilgangur þessa dags er annars vegar að minna á hversu algeng og alvarleg lifrarbólga er og hins vegar til að benda á leiðir til að koma í veg fyrir sjúkdóminn.

Algengustu orsakir lifrarbólgu eru veirur, einkum lifrarbólga A, B, C, D og E. Allar þessar veirur valda bráðum veikindum en einungis lifrarbólga B, C og D valda langvinnum veikindum sem leitt geta til lifrarskemmda, lifrarkrabbameins og dauða. Talið er að um 1,5 milljón manna deyi árlega í heiminum af völdum ofangreindra veira.

Lifrarbólga A og E smitast með menguðum matvælum og menguðu vatni en lifrarbólga B, C og D smitast með menguðum líkamsvessum eins og blóði.

Árlega greinast hér á landi 1-3 einstaklingar með lifrarbólgu A, tæplega 60 einstaklingar með lifrarbólgu B og 40-90 einstaklingar með lifrarbólgu C. Lifrarbólga D og E hafa hins vegar ekki greinst á Íslandi.

Bólusetningar eru áhrifaríkar til að koma í veg fyrir lifrarbólgu A og B en bóluefni eru ekki til gegn lifrarbólgu C, D og E.

Til að koma í veg fyrir lifrarbólgu eru einstaklingar hvattir til að forðast neyslu á illa elduðum mat og menguðu vatni einkum á ferðum sínum erlendis, og að forðast notkun blóðmengaðra nála og áhalda.

Til baka