Fréttir

Ályktanir frá Félagsstjórnarfundi Sjúkraliðafélags Íslands

29 feb. 2016

 

201117 10151175961099869 1562009214 o

Félagsstjórnarfundur Sjúkraliðafélags Íslands 26. febrúar 2016

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu:

Félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands tekur undir ályktun Formannaráðs BSRB  og mótmælir harðlega einkvæðingu heilsugæslustöðva, sem sitjandi ríkisstjórnin er leynt og ljóst að  læða inn, þvert gegn vilja þjóðarinnar.

Ljóst er að ríkisstjórnin hefur markvisst fjársvelt heilbrigðiskerfi og brotið það niður til þess að koma einkvæðingaráformum sínum til leiðar. Félagsstjórn SLFÍ gerir kröfu um  jafnan og góðan aðgang allra landsmanna að öflugu heilbrigðiskerfi og telur það forsendu þess að tryggja megi grundvallarrétt til heilbrigðis óháð efnahag og búsetu.  

Félagsstjórn SLFÍ hafnar algjörlega hverskyns markaðs- og einkavæðingu heilbrigðiskerfisins sem byggir á hagnaðarsjónarmiðum og forgangi hinna efnameiri.

Skortur á sjúkraliðum

Félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands tekur undir með stjórnendum heilbrigðisstofnana sem lýst hafa yfir miklum áhyggjum af vaxandi og viðvarandi  skorti á sjúkraliðum.  Aldur stéttarinn er hár, margir að ljúka sinni starfsævi, sjúkraliðar fara til starfa í nágrannalöndunum og mennta sig til annarra starfa, m.a. vegna þess vinnuálags sem verið hefur hér á landi í áraraðir.

Félagsstjórn hvetur vinnuveitendur til að koma áhyggjum sínum á framfæri við þar til bæra aðila og auglýsa markvist eftir sjúkraliðum og vinna með félaginu að því að auðvelda ófaglærðum starfsmönnum að fara í sjúkraliðanámið.

Sala áfengis í verslunum

Félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands lýsir yfir mikilli andúð á þingfrumvarpi þar sem lagt er til að áfengi verði selt í almennum verslunum.

Áfengisneysla er víða böl sem sundrað hefur fjölskyldum og valdið börnum ómældri sorg, og engin ástæða er til að auka aðgengi að því.  Aukið og óheftara aðgengi eykur enn frekar þær hörmungar sem fylgja óhóflegri áfengisneyslu.

Heilbrigðiskerfið hefur illa geta sinnt núverandi heilbrigiðsvandamálum þjóðarinnar og engin ástæða er til að auka á þau vandamál með slíku vanhugsuðuðu einkavæðingarfrumvarpi.

Til baka