Fréttir

Álagið kallar á styttingu vinnuvikunnar

2 maí. 2019

Þrátt fyrir að vinnutíminn hafi verið eitt af aðal baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar frá upphafi hefur miðað sérstaklega hægt undanfarið í því að stytta vinnutímann, þrátt fyrir samfélagsbreytingar og aukið álag á launafólk, sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í ávarpi sínu á baráttufundi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins á Ingólfstorgi.

„Við þekkjum flest afleiðingarnar af þessum aukna hraða og álagi í samfélaginu. Veikindi tengd kulnun og streitu hafa aukist verulega. Þetta hefur ekki bara áhrif á þá sem fyrir því verða heldur hefur þetta einnig kostnað í för með sér fyrir samfélagið allt,“ sagði Sonja.
Hún benti á að þrátt fyrir að svonefndir lífskjarasamningar hafi verið samþykktir af stærstu verkalýðsfélögunum á almenna vinnumarkaðinum séu enn stórir hópar með lausa kjarasamninga, þar með talið nær allir opinberir starfsmenn. „Það er fólkið sem sinnir mikilvægri almannaþjónustu. Umönnunarstörfunum, kennslunni, löggæslunni og öllum hinum störfunum sem samfélagið getur ekki verið án. Þetta eru störfin þar sem álagið og einkenni kulnunar eru sífellt að aukast.  Þessir hópar gera þá augljósu kröfu að við semjum um styttingu vinnuvikunnar í þeim kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi og það ætlum við að gera,“ sagði Sonja.

Ekki tekist að útrýma misrétti á vinnumarkaði

Þá minnti hún einnig á að þrátt fyrir að kynjajafnrétti hafi verið bundið í lög fyrir 65 árum hafi enn ekki tekist að útrýma misrétti á vinnumarkaði. „Ég veit ekki með ykkur en ég er komin með algerlega nóg,“ sagði Sonja. „Við eigum að útrýma launamuni kynjanna og tryggja jafnrétti á vinnumarkaði í eitt skipti fyrir öll. Ekki bráðum. Ekki á næstunni. Núna!“
Að sama skapi þarf að endurmeta laun kvennastarfa út frá raunverulegu verðmæti þeirra og þeirri verðmætasköpun sem störfin skila. Þessi vítahringur er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk – og því má breyta.“

Lestu ræðu Sonju í heild sinni hér.

Til baka