Fréttir

Áhrifaþættir á heilsu og vellíðan – frá rannsóknum til aðgerða

4 jún. 2013

800px-Michael Marmot

Föstudaginn 28. júní nk. kl. 9:00–15:00 verður haldin ráðstefna í Háskólanum í Reykjavík um ofangreint efni.  Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Sir Michael Marmot.

 

Sir Michael Marmot, er einn eftirsóttasti  fyrirlesari á sviði lýðheilsumála um allan heim. Sir Marmot hefur leitt vinnu á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í greiningu á félagslegum áhrifaþáttum heilbrigðis og áhrifum ójöfnuðar á heilsu.

 

Hann hefur ritað fjölda vísindagreina og bóka á sviðinu, þar með talið bókina Social Determinants of Health.  Hann stjórnanði jafnframt vinnu WHO  við skýrsluna Closing the gap in a generation, sem gefin var út árið 2008 og hefur haft mikil áhrif um allan heim.

 

Sir Marmot er yfirmaður Institute of Health Equity sem hefur það markmið að draga úr áhrifum ójöfnuðar á heilsu. Hann hefur stýrt fjölda byltingarkenndra rannsókna og hefur meðal annars yfirumsjón með langtímarannsókn Breta,Whitehall II, þar sem kannað er hvernig félagsleg staða hefur áhrif á heilsu.

 

Hinn erlendi fyrirlesarinn á ráðstefnunni er prófessor Felicia Huppert, forstjóri The Wellbeing Institute við Cambridgeháskóla. Huppert hefur verið leiðandi á sviði rannsókna og mælinga á vellíðan og er hún m.a. í ráðgjafahópi David Cameron, forsætisráðherra Breta, um mælingar á vellíðan fyrir stefnumótun. Sérsvið Huppert er andleg vellíðan og faraldsfræði jákvæðrar geðheilsu. Hún hefur meðal annars rannsakað áhrif þess að kenna gjörhygli (e. mindfulness) í skólum á hugræn og lífeðlisfræðileg viðbrögð við streitu og rannsakað helstu áhrifaþætti vellíðanar og jákvæðrar geðheilsu.

 

Í framhaldi af erindum erlendra gestafyrirlesara verða flutt íslensk erindi um stöðuna hér á landi hvað varðar áhrifaþætti heilsu og vellíðanar, áhrif ójöfnuðar á heilsu og tækifæri til að nýta rannsóknir til að bæta heilsu og líðan Íslendinga.

 

Ráðstefnan er haldin til minningar um Guðjón Magnússon, lækni ogprófessor.. Guðjón Magnússon vann ötullega að bættri lýðheilsu og heilsueflingu, meðal annars sem aðstoðarlandlæknir (1980-1990), skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu (1990-1996), rektor Norræna lýðheilsuháskólans í Gautaborg (NHV) (1996-2002), einn af framkvæmdastjórum Evrópudeildar WHO og sem vísindamaður og prófessor við Háskólann í Reykjavík . Guðjón hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, til að mynda riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1989 og heiðursviðurkenningu frá ASPHER, samtökum lýðheilsuskóla í Evrópu árið 2009.

 

Takið daginn frá nú þegar!

Verð: 3900 krónur, innifalið er morgunhressing og hádegisverður

Vinsamlegast skráið ykkur fyrir 21. júní með því að senda tölvupóst með viðfangsefninu „Marmot“  á netfangið: skraningar@ru.is“ target=“_blank“ style=“color:rgb(17, 85, 204)“>skraningar@ru.is

 

https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item20424/Ahrifathaettir-a-heilsu-og-vellidan-–-fra-rannsoknum-til-adgerda

 

Til baka