Kjaraviðræður Sjúkraliðafélags Íslands

Kjarasamningar sjúkraliða losnuðu í lok mars 2019. Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) semur við fjóra aðila um kjarasamning, þ.e. fjármálaráðherra f.h. ríkissjóð, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV).

Þeir þættir sem samið er um í kjarasamningunum snúa einkum að launataxta, vinnutíma, vaktaálagi, réttindum eins og veikindum, orlofi og uppsagnafresti. Að auki er samið um almenn réttindi, starfsheiti, persónubundna þætti og launaröðun. Samhliða kjarasamningum við ríkið og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu eru stofnanasamningar sem fela í sér nánari útfærslu á kjarabundnum þáttum við hverja stofnun fyrir sig.

Undirbúningur fyrir kjaraviðræður hafa staðið yfir frá því í nóvember 2018. Daganna  5. – 7. nóvember sat kjaramálanefnd SLFÍ námstefnu í samningagerð sem Ríkissáttasemjari stóð fyrir. Markmið námstefnunnar var þríþætt og laut að því að efla færni samninganefndarfólks, að auka fagmennsku við kjarasamningaborðið og stuðla að órofa samningaferli. Þá gerði kjaramálanefndin athugun á framsetningu kjarasamninga félagsins og kannaði efnislega þætti samninganna. Þann 14. febrúar var haldinn auka trúnaðarmannaráðsfundur þar sem m.a. var farið yfir helstu áherslur í komandi kjaraviðræðum, undirbúningur kjaraviðræna og herferð grasrótarfunda um landsbyggðina var kynnt.

Grasrótarfundir
Í mars og byrjun apríl var efnt til 19 funda með sjúkraliðum víðs vegar um landsbyggðina og einn fundur hefur verið haldinn í Reykjavík. Markmið fundanna var tvíþætt, annars vegar að gefa nýjum formanni tækifæri til að eiga samtal við sjúkraliða og hins vegar að ræða helstu áherslur og framgang kjaraviðræðna. Á fundunum var farið yfir uppbyggingu og virkni stofnanasamninga og rætt um starfsumhverfi sjúkraliða og launakjör. Að auki var kallað eftir viðhorfum og væntingum til kjaramála auk tillögum á útfærslu kröfugerðar.

Fundirnir voru ákaflega vel sóttir og gagnlegar umræður hafa skilað formanni góðum og uppbyggilegum upplýsingum sem er gott að hafa með sér á samningaborðið. Góður samhljómur kom fram um að bæta þyrfti starfsumhverfi sjúkraliða, stytta vinnuvikuna, að hækka launin og að leggja þyrfti áherslu á að hækka álagsgreiðslur á óvinsælum vöktum, s.s. næturvaktir um helgar.

Áherslur
Kjaramálanefnd hefur unnið að kröfugerð og hefur undirbúningur og niðurstaða grasrótafundanna nýst vel við þá vinnu. En rétt er að vekja athygli á að Sjúkraliðafélag Íslands hefur um árabil beitt sér fyrir styttingu vinnuvikunnar, enda þekkja sjúkraliðar að afleiðingar af miklu vinnuálagi geta verið óafturkræfar. Langir og krefjandi vinnudagar bitna á samskiptum við fjölskyldu og vini, starfsánægju og heilsu þeirra. Bent er á að krafa um styttingu vinnuvikunnar er orðin ein helsta krafa launafólks í landinu og allflestir sem hafa kynnt sér málið átta sig á mikilvægi hennar.

Meginmarkmið með að stytta vinnutíma fyrir sjúkraliða lýtur að bættum starfsskilyrðum, þannig að þeim sé gert kleift að vinna 100% starf án þess að gjalda fyrir það með minnkandi starfsþreki og heilsufari sínu. Þá er rétt að taka það fram að mjög víða stendur sjúkraliðum ekki til boða að vinna meira en 80% hlutastarf.

BSRB
Rétt er að vekja athygli á því að Sjúkraliðafélag Íslands er aðildarfélag innan BSRB og hefur bandalagið komið að tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar á fjölda vinnustaða í samstarfi við vinnuveitendur. Árangur verkefnisins bendir til þess að áhrifin séu afar jákvæð og hafa mælingar sýnt fram á marktækt betri líðan starfsmanna, aukna starfsánægju, minni veikindi og aukna framlegð.

BSRB mun leiða umræður um styttingu vinnuvikunnar í komandi kjaraviðræðum, því krafan um að styttri vinnutíma launafólks nær til allra félaga bandalagsins og fer í miðlæga samninga samningsaðila. Þá mun BSRB einnig vera með á sínu borði húsnæðismál, lífeyrismál, fæðingarorlof, starfsumhverfi og vaktavinnu, launaþróunartryggingu, framlag í sjúkra- og styrktarsjóði, jöfnun launa á milli markaða og bann við mismunun á grundvelli aldurs. Formaður SLFÍ situr í viðræðunefndum BSRB og hafa allnokkrir fundir verið haldnir með viðsemjendum.

Markmið
Sjúkraliðafélags Íslands leggur áherslu á aukin kaupmátt launa og efnahagslegan stöðugleika. Hins vegar þarf að gæta jafnræðis og líta til þess sem gerist á hinum almenna markaði. Þá þarf að útrýma kynbundnum launamun því ljóst er að grípa þarf til sérstakra aðgerða til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Þær aðgerðir þurfa að hafa það markmið að leiðrétta skakkt verðmætamat starfa þar sem meirihluti starfsfólks eru konur. Í komandi kjaraviðræðum mun Sjúkraliðafélag Íslands leitast við að ná samkomulagi um framangreint.

Staðan nú
Samningaviðræður Sjúkraliðafélags Íslands hafa farið hægt af stað. Sú venja hefur skapast á íslenskum vinnumarkaði að kjaraviðræður á almennum markaði ljúki fyrst áður en viðræður á hinum opinbera markaði hefjast.

Sjúkraliðafélagið hefur undirritað viðræðuáætlanir við alla sína viðsemjendur þar sem fram kemur að samningur taki við af samningi. Kjaramálanefnd Sjúkraliðafélagsins hefur fundað einu sinni með samninganefnd ríkisins og tvisvar með samninganefnd Reykjavíkurborgar. Á þessum fyrstu fundum með samningsaðilum hafa helstu markmið og áherslur verið kynntar. Viðræður við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband sveitarfélaga eru ekki hafnar. Sjúkraliðafélagið mun upplýsa félagsmenn um framvindu mála eftir fremsta megni. Hins vegar ríkir trúnaður innan samninganefndanna og því ekki unnt að tilgreina ítarlega um framgang viðræðna hverju sinni.

Kjaramálanefnd
Kjaramálanefnd SLFÍ er kosin á fulltrúaþingi og skipuð formanni félagsins ásamt sjúkraliðum sem starfa ýmist hjá ríkinu, sveitarfélögum og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, þau eru:
Sandra B. Franks, Kristín Ólafsdóttir, Sóley Gróa Einarsdóttir, Jóna Jóhanna Sveinsdóttir, Sjöfn Þórgrímsdóttir, Kristín Helga Stefánsdóttir, Jakobína Rut Daníelsdóttir, Þórunn M.J.H. Ólafsdóttir og Hulda Birna Frímannsdóttir. Starfsmaður kjaramálanefndar er Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ.

Til baka