Áherslur í komandi kjaraviðræðum

Sjúkraliðafélag Íslands hefur um árabil beitt sér fyrir styttingu vinnuvikunnar, enda þekkja sjúkraliðar að afleiðingar af miklu vinnuálagi geta verið óafturkræfar. Langir vinnudagar bitna á samskiptum við fjölskyldu og vini, starfsánægju og heilsu þeirra. Þá er ljóst að viðvarandi álag hefur margvísleg áhrif á líðan starfsmanna og vinnustaðinn. Afleiðingarnar birtast m.a. í aukinni fjarvera frá vinnu og veikindum starfsmanna, aukinni starfsmannaveltu, slakri frammistöðu, fleiri mistökum og óhöppum og erfiðri vinnustaðamenningu.

Það er jákvætt að sjá að í dag er krafan um styttingu vinnuvikunnar orðin ein helsta krafa launafólks í landinu og allflestir sem hafa kynnt sér málið átta sig á mikilvægi hennar. Stytting vinnuvikunnar hefur reyndar verið ein megin krafa BSRB um langa hríð og hefur bandalagið komið að tilraunarverkefnum um styttingu vinnuvikunnar á fjölda vinnustaða í samstarfi við vinnuveitendur. Árangur verkefnisins bendir til þess að áhrifin séu afar jákvæð. Mælingar sýndu marktækt betri líðan starfsmanna, aukna starfsánægju, minni veikindi og aukna framlegð.

Á síðasta þingi BSRB var samþykkt í stefnu bandalagsins að lögfesta þyrfti styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir í dagvinnu og að vinnuvika vaktavinnufólks yrði 80% af vinnutíma dagvinnufólks, án launaskerðingar. BSRB mun leiða umræðurnar um styttingu vinnuvikunnar í komandi kjaraviðræðum, því krafan um að styttri vinnutíma launafólks nær til allra félaga bandalagsins og fer í miðlæga samninga samningsaðila. Bandalagið mun einnig vera með á sínu borði húsnæðismál, lífeyrismál, launaþróunartryggingu, framlag í sjúkra- og styrktarsjóði, fæðingarorlof, starfsumhverfi og vaktavinnu, jöfnun launa á milli markaða og bann við mismunun á grundvelli aldurs.

Í komandi kjaraviðræðum mun Sjúkraliðafélag Íslands beita sér fyrir að grunnlaun séu í takt við menntun, ábyrgð og álag og leggja áherslu á að kynbundin launamunur verði upprættur. Það er algert lykilatriði að sjúkraliðar geti lifað af dagvinnulaunum sínum. Rannsóknir sýna að launamunur kynjanna á árinu 2019 er enn til staðar og hefur lengi verið um 17 – 18% Nýleg rannsókn meistaranema við Háskóla Íslands sýnir m.a. fram á að konur í háskólanámi gera að jafnaði 18% minni launakröfur en karlar.

Það er ljóst að grípa þarf til sérstakra aðgerða til að útrýma launamuni sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Þær aðgerðir eiga að hafa það að leiðarljósi að leiðrétta skakkt verðmætamat starfa þar sem meirihluti starfsmanna eru konur. Gera má ráð fyrir að jafnlaunastaðallinn sé stjórntæki sem nota megi til að leiðrétta mismun launa út frá kyni. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017. Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þarf jafnlaunavottunin að byggjast á IST 85 staðlinum. Með innleiðingu hans geta stofnanir komið sér upp kerfi sem tryggir fagleg vinnubrögð og fyrirbyggir beina og óbeina mismunun vegna kyns. Þá styðst málsmeðferð og ákvörðun í launamálum við málefnaleg sjónarmið.

Áhersluatriðin eru mörg sem huga þarf að til að bæta starfskjör sjúkraliða. Fjölmargar ábendingar hafa komið fram í því sambandi til viðbótar við þær áherslur sem taldar eru upp hér að framan. Listin er því langur og verður ekki upptalinn hér, en það er ljóst að kjaraviðræðurnar framundan verða krefjandi, því í grunnin munu þær snúast um bætt lífskjör og betri starfsskilyrði fyrir sjúkraliða.

Sandra B. Franks, formaður

Til baka